FRÉTT SJÁVARÚTVEGUR 25. APRÍL 2005

Aflaverðmæti janúarmánaðar var 5,2 milljarðar króna 
Í janúar 2005 nam aflaverðmæti íslenskra skipa af öllum miðum tæpum 5,2 milljörðum króna samanborið við rúmlega 4,2 milljarða í janúar 2004. Aflaverðmæti hefur því aukist um 23% frá fyrra ári eða um rúmar 960 milljónir króna. Verðmæti botnfiskaflans var 3,3 milljarðar króna og jókst um rúmar 120 milljónir eða um 4%. Verðmæti þorsks var tæpir 2 milljarðar króna og dróst saman um 0,8%, verðmæti ýsuaflans nam rétt rúmum 650 milljónum og jókst um þriðjung og verðmæti ufsa jókst einnig um þriðjung en aflaverðmætið nam rúmum 170 milljónum króna. Verðmæti flatfiskaflans nam tæpum 190 milljónum og svarar það til 23% samdráttar frá fyrra ári. Verðmæti uppsjávarafla var rúmir 1,7 milljarðar og rúmlega tvöfaldaðist. Þetta stafar af aukinni loðnuveiði en aflaverðmæti hennar nam 1,7 milljarði króna. Hins vegar var mjög lítil síldveiði í byrjun þessa árs og verðmæti aflans var einungis 14 milljónir í janúar 2005 en var 150 milljónir króna í janúar 2004. Þá var verðmæti skel- og krabbadýraafla einungis tæpar 5 milljónir en var tæpar 33 milljónir í fyrra.
       Verðmæti afla í beinni sölu til útgerða vinnslustöðva voru tæpir 2,8 milljarðar króna í janúar 2005 samanborið við 1,9 milljarða í janúar 2004 og er það 44% aukning. Verðmæti afla, sem keyptur var á markaði innanlands en fluttur erlendis í gámum, nam rúmum 115 milljónum og jókst um 40% frá fyrra ári. Verðmæti sjófrysts afla var 800 milljónir og dróst saman um 3%. Verðmæti afla sem seldur var beint úr skipi erlendis nam 35 milljónum í janúar 2005 og dróst saman um 46% frá fyrra ári.
       Á Austurlandi nam aflaverðmætið 1,1 milljarði króna í janúar 2005 sem er nærri tvöfalt meira verðmæti en í janúar 2004. Næst komu Suðurnes þar sem unnið var úr afla að verðmæti 950 milljónir og Norðurland eystra þar sem aflaverðmætið nam tæpum 920 milljónum. Einnig varð töluverð aukning á Suðurlandi en þar var unnið úr afla að verðmæti 400 milljónir sem var nær 80% aukning frá janúar 2004. Á Vesturlandi var samdráttur um 34% en aflaverðmæti nam 190 milljónum króna samanborið við 282 milljónir í janúar 2004.
       Hagstofan hefur endurskoðað bráðabirgðatölur fiskafla ársins 2004. Heildarafli íslenskra skipa var 1.727.785 tonn og aflaverðmætið tæpir 68 milljarðar króna. Þar af var þorskafli 227.258 tonn að verðmæti 28 milljarðar króna, ýsuafli  84.563 tonn að verðmæti 7,7 milljarðar króna, síldaraflinn 224.365 tonn að verðmæti 4,6 milljarðar og loðnuaflinn 515.581 tonn að verðmæti 4 milljarðar króna.
       Upplýsingar um afla og aflaverðmæti¹ janúarmánaðar 2005 ásamt endurskoðuðum tölum fyrir árið 2004 er að finna í talnaefni.

Þessar upplýsingar byggja á vigtar- og ráðstöfunarskýrslum sem Fiskistofa safnar frá fiskkaupendum. Fyrir árið 2005 er stuðst við bráðabirgðatölur en endanlegar tölur liggja að baki talna fyrir árið 2004. Athuganir benda til þess að endanlegar tölur séu að hámarki 1-2% hærri en bráðabirgðatölur þegar á heildina er litið en fyrir örfáar fisktegundir getur munurinn þó orðið meiri.


Talnaefni 
 

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.